Fimmtudagurinn 25.ágúst

Góðan dag,

Sit hérna inn í stofu. Klukkan er rúmlega 9 að morgni. Ég var að koma börnunum í skólann og leikskólann. Veðrið er afskaplega dapurt, en samt eitthvað svo kósí. Grenjandi rigning og hún er tiltölulega lóðrétt ólíkt því sem maður hefur nú kynnst norðar á hnettinum.

Í dag eru 11 ár síðan hún mamma dó. Mér finnst svo skrítið að það séu komin svona mörg ár. Stundum finnst mér ég hafa bara talað við hana bara "um daginn". Mér finnst ég oft finna fyrir nálægð hennar og hún er oft í huga mér. Margar góðar minningar.
Mér þykir sárast að mamma fékk aldrei að kynnast börnunum mínum.
Þessi 11 ár hafa verið viðburðarík. Ég missi móður mína, kynnist Sólrúnu og við eignuðumst 3 frábær börn. Fluttum í Spóahólana þar sem okkur leið afskaplega vel. Svo lendum við í peningaklemmu, en það jákvæða við það er að við notuðum það til að sparka okkur út í nám. Ég sé ekki eftir því að hafa komið hérna út og held að það hafi verið nauðsynlegt af því að ég var algjörlega staðnaður þar sem ég var.
Því miður þá skiljum við hérna úti, en það gengur fínt að vinna saman.
Nú sit ég sem sagt hérna 11 árum síðar með smá reynslu í farteskinu.

Ég get ekki beðið eftir að byrja í skólanum. Ég gæti aldrei hugsað mér að vera "iðjuleysingi". Ég er búinn að vera meira og minna í fríi síðan 4. ágúst og þetta er bara orðið gott. Skólinn byrjar samt ekki fyrr en eftir 10 daga. Reyndar erum við búin að fá lista yfir efni sem á að lesa fyrir fyrstu vikuna svo að ég get byrjað strax. Stefni á að kaupa bækurnar í dag.

Dísa er rosasátt í skólanum og Alexander líka. Matthías líður vel í leikskólanum, en er nú samt ekkert sáttur við að maður fari frá honum. Hann er farinn að tala svo mikið og duglegur að endurtaka það sem maður segir. Gerir það á sinn hátt, en það er svona að verða greinilegra hvað hann er að segja. Algjör rúsína eins og systkini hans. Ég er svo stoltur af börnunum mínum.

Jæja, ég ætla að setjast í smástund fyrir framan kassann og horfa á BBC food með kaffibollanum mínum, svo er það ræktin, bókabúðin, matarbúðin, sækja börnin og koma svo heim aftur.

Heyrumst og þakka þeim sem eru ennþá vakandi eftir þennan lestur.

Arnar Thor

Ummæli

Vinsælar færslur